Kennó

Já svei mér þá, hlustaði á fréttir áðan og ein fjallaði um dauða Díönu prinsessu. Uppgötvaði þá að það ERU TÍU ÁR síðan ég byrjaði í Kennó og kynntist fullt af frábæru fólki. (Andlát prinsessunnar var mikið til umræðu fyrst í skólanum, þess vegna man ég þetta, ok ég veit að ég er skrítinWink).

Skólinn var sá skemmtilegasti í heimi, man kannski ekki mikið hvað ég lærði en guð minn góður hvað ég hló mikið og skemmti mér.

Sé aldrei eftir að hafa farið í þetta nám, ég nýt starfsins míns, hvað sem síðar mun koma í ljós og ég eignaðist góða vini fyrir lífstíð. Það er sko bónus sem aldrei verður tekinn!

Kem með smábrot úr einu laginu úr árshátíðaratriðinu okkar (Out of a luck)

Okkar síðasta ár

og því fellum við tár

því ég veit upp á hár, að  ég mun sakna þín

Kennó ég kveð og kennara með,

oft var vistin ógeð

En nú er geim osfrv...

 

Með betri minningum


Prófið þetta!

Kíkti áðan inn á bloggsíðu Daggar vinkonu sem ég geri amk. einu sinni á dag. Þar rakst ég á sniðugt próf. Prófið það og látið mig vita...

 

Samkvæmt kaffiprófinu er ég
Bankakaffi!
..sívinsælt og bráðnauðsynlegt.
Hvernig kaffi ert þú eiginlega?


Fall er fararheill

Fann það strax í dag hvað er gott að vinna nálægt leikskólanum hans Þóris. Það var hringt í mig í hádeginu og hann hafði dottið greyið á nefið og fengið skurð sem þurfti að líma saman á heilsugælsunni. Ég var komin 8 mín. eftir að hringt var í mig að sækja hann. Litla krúttið stóð sig rosalega vel, lá alveg hljóður og kyrr meðan læknirinn gruflaði í sárinu. Vonandi ætlar hann ekki að verða jafn óheppinn og við mæðgurnar og þetta sé ekki það sem koma skal...

Ýr


Fréttir af mér og mínum

Ýmislegt að gerast þessa dagana í mínu lífi. Litli strákurinn minn er orðinn leikskólastrákur. Kláraði aðlögun í gær og er því orðinn fullgildur. Allt gekk að óskum í sambandi við aðlögun, leikskólakennararnir eru mjög ánægðar með snáðann og segja hann ótrúlega duglegan miðað við aldur. Ég sem hélt að hann væri svo háður mér en sé nú að það er öfugt. Mér finnst mjög erfitt að skilja hann eftir, við höfum auðvitað verið límd saman í allt sumar svo það liggur við að mér finnist ég vera að missa af einhverju.

Stóra duglega stelpan mín varð ellefu ára síðastliðinn sunnudag og var fjölskylduafmælið haldið hátíðlegt á þriðjudaginn. Í það mættu rúmlega 30 svo að ég veit ekki alveg hvernig fermingin verður þegar að þeim tíma kemur, það tengjast þessari skvísu svo margir. Ég held svei mér þá að stelpan sé að verða unglingur, á óskalistanum var að fá pening, föt eða snyrtivörur! Ég man þegar ég var á þessum aldri þá var ég enn í hensongallanum og spáði lítið í annað en að leika mér og var alveg sama um hvernig ég leit út.

Og síðast en ekki síst þá er ég byrjuð að vinna á nýjum vinnustað, Lágafellsskóla. Það leggst mjög vel í mig, sé samt að mig langar til að breyta ýmsu sem ætti ekki að vera erfitt því ég er það sem kallað er fagstjóri í íslensku og ræð því heilmikluSmile En ég er eins og margir þegar þeir byrja á nýjum stað, get ekki sofnað, bæði út af stressi og hugmyndum sem flæða um kollinn. Reyndar lagði ég mig yfir Bráðavaktinni áðan svo það skýrir líka það að ég er enn vakandi. Vonandi breytist þetta því ef ég fæ ekki minn svefn þá er ég nú fljót að verða geðvond og þá er voðinn vísLoL

Ýr kennslukona


Verslunarmannahelgin

Það rættist heldur betur úr Verslunarmannahelginni. Ætluðum í útilegu á laugardaginn í framhaldi af hestaferð Hlyns til Þingvalla. En þegar ég kom þangað var ekki stætt út af roki þannig að við snerum við. Stysta útilega sem ég hef farið í, komin heim tveimur tímum seinna!

Fórum á Stuðmenn í gær í Fjölskyldu - og húsdýragarðinum. Það var ansi gaman í frábæru veðri. Þegar við komum heim sáum við að nágrannarnir í þarnæsta húsi voru með lítinn varðeld. Við ætluðum rétt að kíkja þangað en sátum og sötruðum til að verða fjögur í nótt. Alltaf skemmtileg þessi óvæntu djömmSmile

Er núna að fara í bókhaldið, nenni því engan veginn en það verður víst að borga vaskinn......

Ýr


Sjónvörp

Sl. sunnudag ,,dó" sjónvarpið mitt til ellefu ára. Ég keypti ódýrasta tækið þegar ég var ófrísk af Aðalbjörgu, 21" Kolster tæki og kostaði það þá um 35 þús. krónur (sést hvað tækin hafa lækkað). Nú voru góð ráð dýr, afnotagjaldið yrði ekki borgað nema nýtt sjónvarp yrði keypt. Það keyptum við svo í dag sem og dvd/videotæki því mitt 23 ára video er nefnilega nýlega ónýtt. Sjónvarpsleysið háði mér sosum ekkert en tilhugsunin við að hafa ekkert sjónvarp var óbærileg... Nú erum við semsagt komin með 37" tæki, dugar ekkert minna fyrir stóra fjölskylduWink

Var mjög dugleg í dag, tók herbergið hans Þóris alveg í gegn, breytti því og bætti við. Nú er það orðið rosalega flott, sem og tómstundaherbergið þar sem sjónvarpið er í er allt að koma til. Þar vantar bara herslumuninn þannig að við verðum fullkomnlega sátt við það. Færði einnig auka ísskápinn úr því yfir í þvottahúsið. Ansi gott að vera með auka ísskáp t.d. þegar veislur eru og svo maður tali ekki um til að geyma bjórinnGrin

Nú legg ég svo á og mæli um að fólk fari að drífa sig í sveitina til að heimsækja frúna (t.d. þeir sem eru alltaf á leiðinni), því húsið er að verða mjög flott hjá okkur!

Sjáumst þegar við náumst, Ýr

P.s. ég er búin að greiða afnotagjöldin...


Ágúst

byrjaður og mér finnst sumarið gjörsamlega hafa flogið áfram. Ég hef verið út um hvippinn og hvappinn í allt sumar og telst það til að hafa ekki verið heima hjá mér í heila viku í sumar... aldrei verið svona öflug í flakkinu.

Austfirðirnir voru yndislegir. Veðrið var milt og gott, ekkert sólbaðsveður en fínt til að ferðast í. Við skoðuðum margt og mikið, skoðuðum t.d. tvo fossa sem þurfti að ganga brattar brekkur að og bjargaði þeim að ég var með bakpoka sem Þórir var settur í og var þá móðirin fær í flestan sjó. Fyrri fossinn heitir Hengifoss, er þriðji hæsti foss á Íslandi og er gönguleiðin upp að honum ansi skemmtileg. Stundum þurfti reyndar að ýta á eftir mér að aftan og halda í höndina að framan en allt þetta gekk þetta nú upp. Seinni fossinn heitir Fardagafoss og var tekið fram að gönguleiðin upp að honum væri auðveld. Ég veit ekki hvort það telst auðvelt að hanga í keðjum til að komast að fossinum eins og við þurftum að gera, en við vorum þó sammála um það að gaman væri að fara á bak við hann, skrifa nafnið sitt í gestabókina og vera í þessari ævintýraför.

Margar sundlaugar voru prófaðar (Egilsstaða, Reyðarfjarðar, Eskifjarðar, Vopnafjarðar og Seyðisfjarðar) og hafði sundlaugin á Eskifirði vinninginn. Hún er reyndar kölluð efnalaugin af gárungunum eftir lekann í fyrra. Vopnafjarðarvélin var sú rómantískasta, þar er ekkert rafmagn og í myrkri er víst allt lýst upp með kertaljósum.

Hreindýraborgarinn var algjör snilld á Búllunni (og nb. við sáum hreindýr á leiðinni austur sem er víst ekki mjög algeng sjón) og fiskisúpan á Borgarfirði eystri bráðnaði í munninum. Svo var auðvitað grillað í bústaðnum fínar steikur. Ætli aðhaldið byrji ekki bara þegar ég fer að vinna, nenni lítið að huga að því í sumarfríinu, passa enn í örfáar flíkurWink

Nú styttist í að drengurinn byrji í aðlögun, förum á þriðjudaginn eftir viku og þá hefst skólaganga hans. Vonandi fer hún vel með kallinn minn, annars er mömmunni að mætaCool

Ýr

 


Ísland, best í heimi!

Langt síðan að ég skrifaði síðast, samt er nú engin gúrkutíð hjá mérSmile

Vikurnar síðan ég kom heim hafa verið yndislegar. Veðrið hefur gjörsamlega leikið við mann, man ekki eftir öðru eins sumri hér á landi. Þó það hafi rignt aðeins í dag þá var hlýtt.  Nú nýt ég þess í tætlur að vera í fríi og dúlla mér með börnunum mínum. Við erum úti mest allan daginn, förum í sund, vökvum trén og hoppum á trampólíninu. Þetta eru forréttindin við það að vera kennari, hef lítið kynnst því áður, vegna sumarvinnu.

Júlímánuður hefur flogið áfram. Fyrst fór ég í brúðkaup Berglindar vinkonu og Jóns Freys. Þau giftu sig 07.07.07 eins og fleiri og dagurinn var hreint út sagt æðislegur. Brúðhjónin voru stórglæsileg og veislan mjög skemmtileg. Eftir það kíkti ég til Ingibjargar vinkonu sem býr á Sauðárkróki og naut þess að vera með vinkonu minni og hennar fjölskyldu sem gerist því miður alltof sjaldan nú til dags. Á morgun er svo stefnt á enn eitt ferðalagið, fer austur á firði og verð í bústað í viku. Kallinn er reyndar heima, erfitt að fá frí þegar maður eins og hann er sjálfs síns herra. Ég hlakka til að fara austur, þar er margt að skoða og einnig á ég frændfólk sem verður heimsótt. Veðurspáin er reyndar ekki girnileg en ég vona bara það besta.

Það gerast auðvitað enn ótrúlegustu hlutir hjá mér eins og vanalega en alltaf enda þeir vel að lokum eins og þeir vita sem þekkja mig að þeir gera alltaf þrátt fyrir að ég sé mikill hrakfallabálkur. T.d. um daginn þá fórum við hjónaleysin í göngutúr til hestanna okkar sem eru hér rétt fyrir neðan. Þegar ég kom heim uppgötvaði ég að lyklarnir voru týndir. Ég þræddi túnin gjörsamlega og gerði mig að algjöru fífli því fólkið sem býr við hliðina á þeim stóð greinilega ekki á sama um þessa konu sem skreið eftir túninu. En lyklana fann ég ekki þrátt fyrir mikla leit. Svo daginn eftir er mér litið út um eldhúsgluggann heima hjá mér, sé ég þá ekki lyklana þar beint fyrir utan! Týpískt fyrir mig.

Nokkrum dögum seinna grillaði ég hamborgara ofan í liðið og undir lokin hafði ég grillið hálfopið. Haldið þá ekki að gasið hafi klárast, hundurinn nýtti sér auðvitað tækifærið og fékk sér þrjá borgara í kvöldmat, ansi ánægð með sig. Frúin var ekki jafn ánægð en sem betur fer átti ég tvo í frystinum svo enginn fór svangur í rúmið. Hundurinn samt saddasturLoL

Hafið það gott hvar sem þið eruð, knús Ýr


Heim á ný

Jæja þá er ég loksins komin heim eftir samtals 3 vikur í útlöndum! Fríið var algjört æði, sól og hiti allan tímann og allir frískir og hressir. Samt alltaf gott að koma heim í sitt umhverfi og svo ekki sé talað um rúmið og sængina.... ummm

Íbúðin sem við fengum á Spáni var mjög góð, staðsetningin alveg við ströndina og svo ca. 25 mín. gangur að miðbæ þar sem fínt tívolí var. Við garðinn var líka sundlaugargarður sem við notuðum meir en ströndina, því þó það sé notalegt að liggja á ströndinni þá er þessi sandur óþolandi inn um allt og út um alltBlush

Við leigðum bílaleigubíl í 3 daga og fórum í helstu garða og moll á þeim tíma. Svo vorum við auðvitað í anda Reynis Péturs, gengum um allt og skoðuðum okkur um. Við Hlynur héldum í einfeldni okkar að við hefðum lést eitthvað en bjórinn sem sötraður var daglega sá um að svo var ekkiUndecided

Svo skemmtilega vildi til að stelpa sem vann með mér í sjoppunni í gamla daga býr þarna í bænum og vorum við aðeins í sambandi við hana og hennar fjölskyldu og systur hennar sem var þarna í heimsókn. Þau þekkja staðinn eins og handarbakið á sér og græddum við á því. Fórum t.d. á skemmtilega strönd fyrir krakka sem var með leiktækjum úti í sjónum en höfðum ekki hugmynd um hana fyrr en þau sögðu okkur frá. Þessi strönd var algjör paradís fyrir krakkana og var erfitt að ná þeim niður af leiktækjunum eftir 2 tíma úti í sjónum. Aðalbjörg fékk líka eyrnabólgu eftir ævintýrið og skildist mér á lækninum að það sé algengt eftir mikinn sjó og sund í útlöndum.

Við komum heim seint og um síðir aðfararnótt sunnudags eftir seinkun (auðvitað...). Fyndið að sjá muninn milli flugvalla á Spáni, ég fékk tax free þarna og var fylgt í lögreglufylgd að tollaranum. Ég mátti bara fara ein og fyrst hélt ég á glasinu hans Þóris en var á punktinum snúið við og þurfti að skilja það eftir. Tollarinn stimplaði á miðann, talaði auðvitað bara spænsku og svo þarf ég að senda hann til Madrídar. Miðað við þegar við vorum út í Barcelona þá var tax freeið ekkert mál og m.a.s. upphæðin sem kaupa þarf fyrir lægri en á Alicante. Það virðist vera að þeir vilji að útlendingar sleppi þessu sem ég veita að margir geri út af frumleika og óþægindum.

Þórir er loksins kominn inn á leikskóla, reyndar ekki þann sem ég sótti um, en ég er samt ánægð. Var farin að sjá fram á þvílíkt vesen því börn fædd í nóvember og desember eru enn ekki komin inn. Svo er bara að krossa fingur og vonast eftir því að hann fái aðlögunina á tíma sem hentar mér en leikskólastjórinn var nú ekki mjög bjartsýn með það....

Ýr


Berlín

Komin loksins heim eftir 1 og 1/2 tíma seinkun, sem var samt ekkert miðað við Flugleiðir sem seinkaði um 9 klst! Kom heim kl. 2 í nótt og er auðvitað vöknuð með drengum mínum:) Ótrúlegt hvað hann hefur stækkað og farinn að tala mikið.

Berlín var æðisleg borg. Þetta er náttúrulega borgin sem ýmislegt gekk á í seinni heimstyrjöldinni svo það var margt fróðlegt að sjá. Fullt af flottum byggingum, múrinn áhrifaríkur og Brandenburgarhliðið stórfenglegt. Það var magnað að koma í Ólympíuþorpið, horfa á myndband um setningu leikanna 1936 og hvernig Hitler stjórnaði öllu. Jessie Owens fékk ekki gullin sín fjögur út af litarhætti og hundum og gyðingum var bannaður aðgangur. Og NB í þessari röð! Munurinn á Austur og Vestur - Berlín var líka sjáanlegur. Ég gæti talið upp miklu fleira en læt hér staðar numið.

Ekki skemmdi heldur veðrið fyrir, sól allan tímann og 30° fyrir utan að tvisvar komu smá hitaskúrir og þrumur.

Nú var ég að enda við að setja í fyrstu þvottavélina og fer bráðum að pakka fyrir næstu ferð því hún hefst á morgun!8| Líkar vel við þetta brjálæði og vonandi verður næsta ferð eins góð og Berlínarferðin.

Knús og hafið það gott í júní, vonandi leikur veðrið við Íslendinga, þeir eiga það svo sannarlega skilið.

Ýr


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband