6.2.2008 | 18:10
Öskudagur
Þessi stóra flotta stelpa vann karokíkeppni í skólanum sínum í dag, öskudag. Hún var búin að æfa sig vel en fleiri flottir keppendur voru þannig að hún ákvað bara að hafa gaman af því að syngja og gera sitt besta. Ég fann hvað ég fylltist stolti þegar ég las smsið frá henni þar sem hún sagðist hafa unnið.
Annars hefur öskudagurinn verið óvenjulegur fyrir mig. Ég mætti með nornahatt í vinnuna í morgun því venjan er í Lágafellsskóla að allir séu í einhverjum grímubúningi á öskudag. Mér fannst þetta skemmtilegt og gaman að sjá fjölbreytta búninga nemenda og kennara. Skemmtilegt uppbrot við skammdegið. Þórir fór sem batman í leikskólann og Aðalbjörg var kanína. Hlynur var sá eini í fjölskyldunni sem fór ekki í búning, nema að vinnufötin hans séu í ætt við pólsku vinnumennina í teiknimyndinni forðum daga...
Annars er bara allt gott að frétta, ég er ánægð með snjóinn en er satt best að segja orðin frekar þreytt á roki og skafrenningi. En þessi vetur hefur sannarlega reynt á þolrifin miðað við síðustu vetur. Kannski er það bara ágætt, að við séum minnt á það öðru hverju að við búum á gamla góða Íslandi.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
22.1.2008 | 11:15
Vá hvað ég er enn sjokkeruð!
Hlynur var í rútunni, sem betur fer slasaðist enginn. Það er greinilega stutt á milli gleði og sorgar í þessu lífi. Mér er búið að vera flökurt í allan morgun, varla vinnufær.
Kallinn verður sko knúsaður í kvöld!
Rúta fauk á fólksbíl | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
7.1.2008 | 14:05
Lungnabólga og lóðarí
Já það er hægt að segja að það hafi verið ástand á bænum. Þórir greindist með lungnabólgu á föstudaginn og tíkin hefur verið að lóða í rúma viku
Sem betur fer tekur þetta enda eins og annað, ég fór með Þóri til læknis í morgun og honum leist miklu betur á hann heldur en síðast. Hann er líka búinn að vera ansi sprækur strákurinn, ekki hægt að sjá nein veikindamerki á honum.
Í sambandi við tíkina er þetta aðeins meira mál. Hún greyið getur varla farið út að pissa nema í fylgd með fullorðnum og það eru alltaf einhverjir gæjar að sniglast í kringum húsið, sem hlaupa í burt um leið og ég birtist Í nótt voru m.a.s. tveir sem merktu sér stað hér fyrir utan ákveðnir í að komast yfir heimasætuna. En þeim verður ekki að óskum sínum, ég sé til þess! Og mikið verð ég fegin þegar lóðaríið er gengið yfir og óvelkomnir gestir hætta að láta sjá sig.
Ég veit ekki alveg hvernig ég verð þegar gæjar í mannsmynd fara að læðupokast hér innan fárra ára, men den tid, den sorg...
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
1.1.2008 | 04:15
Gleðilegt ár elskurnar mínar:)
Gott kvöld allir saman og gleðilegt ár:) Áramótin hafa verið frábær hjá okkur, við fórum t.d. á brennu hér í Dalnum í þessu fína veðri en öðrum brennum hafði víst verið aflýst sökum vondrar veðurspár. Ég verð nú að segja það að mér finnst þér hafi verið frekar fljótir á sér því kl. 20.30 var allt í lagi með veðrið og það hélst fram yfir miðnætti, það var eins og einhver héldi verndarhendi hér yfir til rúmlega 00 og þá kom vitlaust veður...
Við Aðalbjörg vorum að klára eitt Monopoly rétt í þessu og auðvitað vann gamla konan, en ekki hvað En rosalega er gaman að eyða nýársnótt við spilamennsku, mæli með því
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
26.12.2007 | 23:57
Ljóð
fríð með rjóðar kinnar
litla Ýr með bros á brá
blómið mömmu sinnar
Þetta ljóð fann Sif frænka í dótinu hennar ömmu með skriftinni hennar mömmu, mikið ofsalega þykir mér þetta krúttilegt. Ætli þetta sé sama Ýrin?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
25.12.2007 | 21:52
Jólalegt í sveitinni
Jólin eru búin að vera yndisleg í alla staði. Við vorum þrjú í gær, borðuðum humarsúpu í forrétt og krónhjört í aðalrétt, æðislega gott Í dag var ég fyrst með jólaboð fyrir fjölskylduna mína og svo fórum við til tengdó í kvöld. Ég gæti ekki verið meira södd!
Hér eins og annars staðar hefur kyngt niður snjó í dag, æðislega jólalegt. Feðgarnir fóru í smá snjósleðaferð eins og sést á myndinni og var Þórir mjög hrifinn. Ætli hann verði ekki eitthvað í jaðaríþróttum eins og pabbi hans var og föðurbróðir, það kæmi mér ekki á óvart...
Gleðileg jól og hafið það sem allra best yfir hátíðirnar. Þakka allt gamalt og gott á liðnum árum
Jólaknús,
ÝrBloggar | Breytt 7.1.2008 kl. 11:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
16.12.2007 | 18:15
Trampólínið
fauk meðal annars í óveðrinu á föstudaginn. Það átti ekki að geta gerst, búið að festa það með 16 auka steypustyrktarjárnum, en jú það fauk og endaði hér neðst í lóðinni á hvolfi. Sem betur fer skemmdi það ekkert. Það er ansi langt síðan að ég hef upplifað annað eins veður og svei mér þá held ég að ég hafi aldrei keyrt sjálf í svona veðri. Skólahald féll líka niður víðast hvar t.d. á mínum vinnustað og var ég komin heim kl. 10 með börnin mín, höfðum það kósí, nema þegar ég fór út að bjarga tramólíninu þá var ég ansi blaut, hárið á mér var blautara eftir rigninguna heldur en eftir sturtuna, sver það.
Næturvaktin var mikið í tækinu um helgina og vá hvað ég er búin að hlæja mikið. Var búin að heyra að þetta væru fyndnir þættir en hefði aldrei getað ímyndað mér snilldina. Georg er frekar óþolandi týpa, Daníel luri og Ólafur Ragnar wannabí gæi. Merkilegt hvað þessir þættir endurspegla íslenskt samfélag. Mæli svo sannarlega með því að fólk noti jólin til hláturs og horfi á Næturvaktina, ég mun pottþétt gera það aftur!
Annars er jólastússið allt í réttum farvegi eins og sagt er, pantaði jólakortin í gær og er búin að kaupa slatta af jólagjöfum um helgina. Bara nokkrar gjafir eftir, þar á meðal til Hlyns, sú erfiðasta.
Ýr
P.S. Hlynur segir að ég sé að stæla Ólaf Ragnar með nýju hárgreiðslunni, gæti verið eitthvað til í því en verst er að ég var ekki búin að sjá Næturvaktina áður en ég klippti mig
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.12.2007 | 18:25
Sunnudagur
Já nú er helgin senn á enda og ekki hægt að segja annað en að hún hafi verið annasöm. Jólahlaðborðið á föstudagskvöldið var alveg frábært, góð stemmning og frábær matur. Gærdagurinn var góður frá a - ö og mótið í dag gekk sannarlega vel Við vorum í öðru sæti af fimm liðum, svo við urðum ansi montnar, sérstaklega út af því að það kom okkur á óvart.
Stefni á að baka aðeins í kvöld, annað en vandræði
Ýr
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
6.12.2007 | 22:34
Jólastúss
Já það er ekki hægt að segja annað en það sé mikið stúss þessa dagana. Jólahlaðborð á morgun, kökubasar hjá sunddeild Aðalbjargar á laugardaginn, þá á einnig að finna jólatré fyrir leikskólann hans Þóris og Sara er að fara að syngja í Ráðhúsinu. Á sunnudaginn á ég síðan að keppa, Aðalbjörg að spila í Brautarholtskirkju og Hlynur að syngja á sama stað. Semsagt ekki mikil hvíld um helgina... En svona eru víst flestar helgar hjá okkur mannfólkinu í desember, ekki satt?
Þetta er líka fyrsti desembermánuður sem ég hef upplifað sem kennari að hafa ekki prófstress, þau byrja ekki fyrr en í janúar í Lágafellsskóla! Ég er hlynnt því, sleppa nemendum og fjölskyldum þeirra við aukið álag, það er víst nóg samt!
Og nota bene, mér finnst yndislegt að hafa þessa snjóföl sem er, þá verður miklu bjartara og jólalegra.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
29.11.2007 | 10:42
Veðramót og Harðskafi
Já við hjónaleysin skelltum okkur í bíó sl. þriðjudag á Veðramót. Við vorum búin að heyra bæði gott og slæmt um hana þannig að við fórum við engar væntingar. Okkur fannst hún hreint út sagt frábær, snerti mann mikið og leikurinn var góður. Hlynur sagði nú að Hilmir Snær og Atli Rafn væru nú bara að leika sjálfa sig, kærulaus ljúfmenni en ég sel það ekki dýrara en ég keypti.
Kláraði líka Harðskafa, nýju bókina hans Arnaldar, um daginn. Hún fjallar að mestu leyti um Erlend og hans rannsóknir. Þessi bók rann ljúflega í gegn, hélt mér við efnið. Eins og aðrar bækur Arnaldar er hún vel skrifuð.
Ég mæli svo sannarlega með þessu tvennu og ekki skemmir að hvoru tveggja er eftir íslenska höfunda. Íslenskt, já takk
Ýr
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)